A A+ A++ A Leita
Flýtileiðir : Forsíða << >> Efnisyfirlit
Vefslóð : Aðgengi fyrir alla > Íbúðarhús > Stofur

Í þessum kafla er fjallað um stærsta rými íbúðarinnar, stofuna. Leitast er við að benda á þau atriði sem gera stofuna aðgengilega öllum.

ÍHUGUNAREFNI

Stofan er stærsta herbergi íbúðar og því ætti aðgengi þar að vera auðvelt. Hún er oftast með gluggahlið í sólarátt og í góðum tengslum við garð, verönd eða svalir. Eldhús, forstofa og gangur liggja þar að.

Hæðarmismunur stofugólfs og verandar eða svala er algengur farartálmi. Algengt er að eitt til tvö þrep séu frá verönd að svalagólfi, auk þröskuldar í dyraopi. Til að tryggja aðgengi ætti að forðast slíkt fyrirkomulag.

Stærð og staðsetning dyra, glugga og innréttinga hefur áhrif á aðgengi. Hafa ber í huga að fyrirkomulag stofu mæti kröfum um lágmarksstærð m.t.t. rýmisþarfar hjólastóls.

Rúmgóð stofa er til hagsbóta fyrir alla og er forsenda þess að allir geti notað þetta mikilvæga herbergi.

LÖG OG REGLUGERÐIR

Hér er vísað til ákvæða í lögum og reglugerðum, sem sérstaklega eru birt í kafla 1.3, Lög og reglugerðir.

Í Byggingarreglugerð nr. 441/1998 er fjallað um stofur í eftirfarandi greinum:

78. gr. Lofthæðir 78.1, 78.2, 78.3
79. gr. Gluggar, hurðir og kvistir 79.1, 79.2
92. gr. Almennt um íbúðir 92.1, 92.2

Á eftirtöldum Rb-blöðum er sérstaklega fjallað um stofur og ber að hafa hliðsjón af þeim við hönnun bygginga, sbr. Byggingarreglugerð:

Rb(E2).003 Íbúðir og umhverfi m.t.t. fatlaðra
Rb(E2).101 Rýmisþörf hjólastóls
Rb(E2).201 Hönnun bygginga og mannvirkja m.t.t. fatlaðra
Rb(E6).001 Öryggi í heimahúsum m.t.t. barna

 

TILMÆLI

Stofa og eldhús mynda dagvistarhluta íbúðar. Gagnsemi stofu ræðst af tengslum hennar við önnur herbergi sem og fyrirkomulagi innréttinga og húsgagna.

Góð tengsl milli stofu og eldhúss eru því mikilvæg og í minni íbúðum ættu þessi rými helst að vera samliggjandi og tengd með þeim hætti að hjólastólanotandi geti komist hindrunarlaust á milli þeirra.

Æskilegt er að aðskilja stofu og eldhús frá svefnherbergjum og baðherbergi, meðal annars m.t.t. til hljóðeinangrunar.

Tengsl milli stofu og verandar, garðs eða svala verða að vera góð. Forðast ber hæðarmun og þröskuld.

Stærð stofu

Ferningslaga stofa gefur bestu möguleika á athafnarými hjólastólanotanda.

Í byggingarreglugerð er kveðið á um að til þess að vistarvera teljist lögleg íbúð skuli þar vera íbúðarherbergi sem sé að minnsta kosti 18 m2 að stærð. Stofa er að jafnaði stærsta herbergi íbúðarinnar og lágmarksstærð hennar má því ekki vera innan við 18 m2.

Stærð stofu er háð nauðsynlegu athafnarými fyrir hjólastól og opnunarátt dyra. Þess skal gæta að innréttingar og húsgögn skerði ekki nauðsynlegt athafnarými hjólastóls. Rýmisþörf handknúins hjólastóls er 150 x 150 cm, en rýmisþörf rafmagnshjólastóls er 180 x 180 cm.

Gluggar

Aðgangur að gluggum þarf að vera góður.

Gluggar í stofu eru venjulega stærri en í öðru rými, en ef gluggar eru of stórir getur skapast vandamál við upphitun rýmis. Gera þarf ráðstafanir sem tryggja einangrun með sérstöku einangrunargleri.

Samkvæmt byggingarreglugerð má samanlagt ljósop glugga í stofu ekki vera minna en sem svarar til 1/10 af gólffleti hennar. Stærð glugga í 18 m2 stofu má því ekki vera minni en 1,8 m2. Þess þarf þó að gæta að ljósop glugga í stofu verði ekki meira en 1/5 af gólffleti hennar.

Hæð undir stofuglugga og hæð svalahandriðs má ekki koma í veg fyrir að hægt sé að horfa út um gluggann þegar setið er í stól eða legið í rúmi. Varhugavert er að láta glugga ná niður að gólfi m.t.t. umferðar hjólastóla.

Forðast ber gluggaþverpósta í augnhæð þegar setið er eða staðið.

Lóðréttir póstar geta dregið úr mótbirtu og henta vel sjónskertum.

Sjá ennfremur kafla 4.2 Gluggar.

Lýsing og rafmagn

Lýsing

Tryggja þarf góða og jafna lýsingu. Gera þarf ráð fyrir loftlýsingu sem veitir almenna, jafna lýsingu, en einnig þurfa að vera lampar í lofti og á veggjum sem gefa áherslulýsingu. Þeirri lýsingu þarf að vera hægt að stjórna með ljósdeyfi (dimmer).

Almenn lýsing þarf að vera a.m.k. 500 lux og lesljós við vinnuborð eða rúm allt að 1500 lux.

Rofar og tenglar

Auk hefðbundinna rafmagnstækja, svo sem útvarps og sjónvarps, þurfa margir að nota hjálpartæki í stofu. Því skal ekki spara rafmagnstengla og ljósastæði.

Gott er að hafa rofa á vegg fyrir hvern tengil og geta stjórnað rafmagnstækjum og lýsingu með rofum við inngang í stofu.

Tenglar mega ekki vera nær hornum en 50 cm og tenglar og rofar skulu vera í 80-100 cm hæð frá gólfi.

Fjöldi rafmagnstengla þarf að vera a.m.k. 8-10 tenglar og ljósastæði ættu ekki að vera færri en þrjú. Gott er að gera ráð fyrir aukatengladósum við glugga. Það auðveldar uppsetningu rafknúins opnunarbúnaðar á glugga og rafknúinna gluggatjalda.

Gera þarf ráð fyrir síma og dyrasíma auk loftnetstengils.

Litir og efnisval

Þegar hannað er með þarfir sjónskertra í huga þarf sérstaklega að ígrunda litaval, áferð og efnisval.

Litaval

Gott er að hafa loft í ljósum, möttum litum, sem dreifa ljósinu jafnt yfir rýmið.

Nota skal liti til að aðgreina veggi frá gólfi. Gott er að aðgreina höldur og kanta frá aðliggjandi flötum með skörpum litaskilum.

Áferð og efnisval

Forðast ber glansandi yfirborðsáferð. Einlit og ómynstruð efni eru heppilegri, sérstaklega m.t.t. til sjónskertra og fólks með elliglöp.

Forðast ber skarpa kanta og horn. Mjúk efni draga úr hættu á skaða við fall.

Forðast ber mjúk teppi á gólf. Þau eru heilsuspillandi og slæm fyrir ofnæmissjúklinga, auk þess að vera farartálmi fyrir fólk í hjólastól og þá sem nota gönguhjálpartæki.

Fólk með skerta heyrn getur orðið fyrir truflunum vegna hljóða af ákveðinni tíðni. Nota má ísogsefni á loft til að gera rými hentugri fyrir heyrnaskerta.

Gróður

Gæta þarf þess að velja ekki plöntur og blóm sem sannanlega geta valdið ofnæmisviðbrögðum.


 


Flýtileiðir : Forsíða << >> Efnisyfirlit Byrjun síðu
Vefslóð : Aðgengi fyrir alla > Íbúðarhús > Stofur